Yngsti smyglarinn af þremur sem voru handteknir við Djúpavog og Hornafjörð í gær vegna gruns um tilraun til þess að smygla hundrað kílóum af fíkniefnum til landsins með skútu, var í meðferð fyrir fjórum mánuðum síðan.
Maðurinn sem um ræðir er fæddur árið 1981. Hann fór í vímuefnameðferð yfir jólin og hugðist hætta neyslu fíkniefna. Nú, fjórum mánuðum síðar, hefur hann verið handtekinn fyrir tilraun til þess að smygla rúmum hundrað kílóum af fíkniefnum til landsins.
Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta magnið en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis er magnið yfir hundrað kíló.
Allir mennirnir þrír hafa verið hnepptir í gæsluvarðhald í þrjár vikur.
Varðskip Landhelgisgæslunnar eltir nú skútuna sem grunað er að hafi verið notuð til að flytja efnin til landsins. Þegar skipið nær skútunni er ætlunin að snúa henni og sigla til Íslands.