Erlent

Lögregluforingi í máli Madeleine McCann falsaði gögn

Óli Tynes skrifar
Madeleine McCann hvarf fyrir tveim árum.
Madeleine McCann hvarf fyrir tveim árum.
Gonalco Amaral lögregluforingi tók fljótlega þann pól í hæðina að foreldrar Madeleine hefðu orðið henni að bana fyrir slysni.

Þeir hafi sprautað í hana of stórum skammti af svefnlyfi til þess að geta farið út að borða án barnanna. Foreldrarnir eru báðir læknar.

Foreldrarnir fengu stöðu grunaðra en voru um síður hreinsaðir af þessum áburði.

Amaral var leystur frá rannsókn málsins vegna gagnrýni á störf hans og valdi að fara á eftirlaun.

Falsaði gögn

Breska blaðið Daily Telegraph segir frá því í dag að nú hafi komið í ljós að Amaral hafi falsað sönnunargögn í öðru máli.

Árið 2004 hvarf hin átta ára gamla Joana Ciprian úr smábæ sem er skammt frá Praia de Luz þar sem Madeleine hvarf.

Joana fannst aldrei en móðir hennar og frændi voru dæmd fyrir að myrða hana.

Móðirin hélt því fram að lögreglan hefði beitt pyntingum til þess að fá þau til þess að játa.

Eftir sjö mánaða rannsókn voru þrír lögreglumenn sýknaðir af þeirri ákæru.

Í máli gegn Amaral sem lauk nýlega segir í dómsorði að hann hafi orðið uppvís að því að falsa sönnunargögn til þess að fegra málstað lögreglumannanna.

Vilja stöðva bók

BBC fréttastofan segir að foreldrar Madeleine ætli að höfða mál á hendur Amaral fyrir þær fullyrðingar að þeir hafi falið lík hennar.

Foreldrarnir vilja einnig stöðva bók sem Amaral hefur skrifað um málið. Þar heldur hann því fram að Madeleine sé dáin, en það vilja foreldrarnir ekki samþykkja.

Fyrr í þessari viku var upplýst að einkalögreglumaður sem vinnur fyrir foreldra Madeleine tengi dæmdan breskan barnaníðing við hvarf hennar.

Hann bjó skammt frá Praia da Luz þegar Madeleine hvarf fyrir tveim árum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×