Erlent

Á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi fyrir að misnota börn

Kanadamaðurinn Christopher Paul Neil, sem grunaður er um að hafa misnotað fjölda barna víðs vegar í Asíu, var í morgun leiddur fyrir rétt í Bangkok í Taílandi. Hann á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi.

Christopher Paul Neil var handtekinn í fyrra en hans hafði verið leitað í yfir þrjú ár. Það var ekki fyrr en alþjóðalögreglunni, Interpol, með aðstoð þýskra lögregluyfirvalda tókst að afrugla mynd af Christopher sem var dreift um allan heim. Hundruð vísbendinga bárust eftir að myndin var birt og var Christopher handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Bangkok.

Christopher mætti í réttarsal í morgun, berfættur og með bros á vör. Hann er ákærður fyrir að misnota 9 ára gamlan talenskan dreng en Christopher bjó í Taílandi á árunum 2002 til 2004. Á hann að hafa greitt honum sem samsvarar eitt til tvö þúsund krónum fyrir ýmis kynferðislegar athafnir árið 2003. Hann lýsir yfir sakleysi sínu og sagði við fréttamenn í morgun að hann væri sannfærður um að réttlætinu yrði fullnægt með sýknudómi.

Saksóknarar hyggjast leggja fram yfir 70 ljósmyndir sem sýna Christopher í kynferðislegum athöfnum með ungum drengjum, en alþjóðalögreglunni hafa þegar borist yfir 200 ljósmyndir þar sem hann sést misnota unga drengi frá Kambódíu og Víetnam. Sumir þeirra voru einungis sex ára gamlir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×