Erlent

Slegist um fjársjóð fyrir dómstól í Flórída

Málið hófst með sjóorrustu árið 1804 úti fyrir ströndum Gíbraltar og hefur nú hafnað fyrir dómstóli í Flórída í Bandaríkjunum.

Í réttarsalnum er slegist um hvort fjársjóðsleitendur eigi rétt á 17 tonnum af gulli og silfri sem þeir náðu úr flakinu af spænsku freigátunni Nuestra Senora de las Mercedes árið 2004.

Freigáta þessi sökk eftir sjóorrustu milli breskra og spænskra skipa árið 1804 en Nuesta Senora var á leið til Spánar frá Úrugvæ og er fjársjóðurinn sem fannst um borð metinn á yfir 30 milljarða króna.

Það var fyrirtækið Odyssey Marine Explorations sem fann skipið en fyrirtækið hefur sérhæft sig í fjársjóðsleitum af þessu tagi. Þeir létu spænsk stjórnvöld ekki vita af fundi sínum og hirtu farminn og sigldu með hann til Flórída.

Nú hafa spænsk stjórnvöld stefnt Odyssey og krefjast þess að fá hinn verðmæta fram í hendur þar sem flakið af freigátunni var innan spænskrar efnahagslögsögu. Þar að auki sé farmurinn og flakið hluti af spænskri mennngarsögu. Að Odyssey hirti hann sé ekkert annað en nútíma sjórán.

Odyssey aftur á móti segir að ekki sé sjálfgefið að flakið sem þeir fundu sé af spænska skipinu og bera þar að auki fyrir sig vörnina að sá á fund sem finnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×