Erlent

Versti stomur vetrarins skellur á Bretlandi og Írlandi

Bretar og Írar glíma nú við versta stormveður vetrarins en stormurinn er nú kominn upp að ströndum suðvesturhluta Englands. Vindstyrkurinn er orðinn 30 metrar á sekúndu og færist enn í aukana.

Almannavarnir á svæðinu hvetja nú fólk til að færa sig frá ströndinni og lengra inn í landið. Samhliða þessu hafa viðvaranir vegna sjávarflóða verið gefnar út fyrir strendur Devon og Cornwall. Norðar í landinu eða í Skotlandi er búist við stórhríð og mikilli snjókomu.

Veðurfræðingar hafa fylgst með storminum undanfarna daga og för hans yfir Atlantshafið að ströndum Írlands og Bretlands. Fyrir stundu bárust almannavörnum tilkynningar um fyrstu tjónin af völdum stormsins en þök hafa fokið af húsum í Devon og rafmagnslínur í Slapton hafa fokið niður. Nokkur röskun er þegar orðin á lestarsamgöngum og fólk er beðið um að aka ekki í þessum landshlutum nema nauðsyn beri til.

Björgunarsveitir eru í viðbragðstöðu í Cornwall og aukalið lögreglu var kallað út í nótt á því svæði. Í suðurhluta Wales hefur um 170 manns sem búa við ströndina verið ráðlagt að yfirgefa heimili sín vegna flóðahættunnar.

Reiknað er með að stormurinn nái hámarki á næsta klukkutímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×