Erlent

300 slasaðir eftir 200 bíla árekstur

Vegurinn breyttist um tíma í gríðarlegt eldhaf.
Vegurinn breyttist um tíma í gríðarlegt eldhaf. MYND/AP

Þrír létust í fjöldaárekstri 200 bíla á þjóðvegi á milli Dubai og Abu Dhabi í dag. Samkvæmt upplýsingum lögreglu eru sex manns alvarlega slasaðir og 39 illa slasaðir en stöðugir. Að minnsta kosti 255 hlutu minni háttar meiðsli.

Tugir bíla urðu alelda í slysinu á þjóðveginum milli borganna tveggja á háannatíma í morgun. Þykk þoka og slæmt skyggni orsökuðu slysið að sögn lögreglu.

Umfang slyssins og slæmt skyggni tafði björgunarstörf fram til hádegis. Þyrlur fluttu svo slasaða á tvö helstu sjúkrahúsin í Dubai.

Veginum var lokað í marga klukkutíma á meðan unnið var að rannsókn. Það orsakaði miklar umferðartafir frá Dubai og Abu Dhabi. Um 20 kílómetra bílaröð myndaðist og komust bílar sem lentu í henni hvorki aftur á bak né áfram í nokkra klukkutíma.

Umferð í sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur aukist gífurlega á liðnum árum samfara aukinni efnahagslegri hagsæld. Sérstaklega í Dubai sem er nú viðskiptamiðstöð Miðausturlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×