Erlent

Flugræningi vill kaupa Múhameðsteikningu Westergaards

Kurt Westergaard.
Kurt Westergaard.

Bandarískur karlmaður, sem situr í fangelsi fyrir flugrán, vill kaupa fræga mynd danska teiknarans Kurts Westergaards af Múhameð spámanni.

Fram kemur á fréttavef Jótlandspóstins að hinn 64 ára Martin McNally, sem setið hefur í fangelsi í 36 ár, hafi sent blaðinu bréf þar sem hann lýsir yfir áhuga á að kaupa upprunalegu myndina fyrir um fimm þúsund dollara, um 350 þúsund krónur. Bréfið er birt á vef Jótlandspóstsins og greint frá því að Westergaard telji að þarna sé alvara á ferð. 

Á myndinni er Múhameð sýndur með sprengju í túrbani sínum og olli hún ásamt fleirum mikilli reiði í löndum múslíma þegar hún var fyrst birt fyrir rúmum tveimur árum. Myndin var svo endurbirt á dögunum þegar upp komst um áform manna um að ráða Westergaard af dögum.

Sjálfur segir Westergaard að myndin sé ekki til sölu og orðar það ekki beint pent í samtali við Jótlandspóstinn: „Hvað í andskotanum vill hann gera með myndina? Ætlar hann að hengja hana upp í klefanum sínum eða fjölfalda hana og dreifa til annarra í fangelsinu?" spyr Westergaard.

Hann hefur hug á að afhenda Konunglega bókasafninu í Danmörku teikninguna þegar hann sest í helgan stein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×