Erlent

Vilja þingkosningar í Serbíu

Boris Tadic forseti Serbíu kýs í forsetakosningunum í febrúar.
Boris Tadic forseti Serbíu kýs í forsetakosningunum í febrúar. MYND/AFP

Serbneska ríkisstjórnin hefur farið fram á það við Boris Tadic forseta Serbíu að leysa upp þingið og efna til kosninga. Beiðnin kemur fram eftir að Vojislav Kostunica forsætisráðherra tilkynnti um afsögn sína eftir að ríkisstjórnin féll um helgina.

Ráðherrum hafði mistekist að komast að samkomulagi um hvort fresta ætti frekari tengslum við Evrópusambandið í mótmælaskyni við viðurkenningu sumra Evrópulanda á sjálfstæði Kosovo.

Flokkur Tadic forseta þrýstir á aðild að Evrópusambandinu. Forsetinn hefur gefið í skyn að hann muni verða við beiðni um kosningar.

Meirihluti Evrópulanda hefur viðurkennt Kosovo eftir einhliða sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsins 17. febrúar síðastliðinn. Serbía og Rússland segjast aldrei munu viðurkenna það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×