Erlent

Nýtt heiðursmerki fyrir þýska herinn í bígerð

Forseti Þýskalands hefur fallist á tillögu um að búið verði til nýtt heiðursmerki fyrir þýska herinn. Hinsvegar er ekki ætlunin að endurlífga Járnkrossinn.

Þýski herinn notar enn Járnkrossinn sem merkinu á öllum stríðstólum og farartækjum sínum. Hinsvegar hefur Járnkrossinn ekki verið notaður sem heiðursmerki í hernum frá lokum Seinni heimstryjaldarinnar.

Varnarmálaráðuneytið þýska hefur hafnað óskum um að Járnkrossinn verði aftur hafinn til fyrri vegs og virðingar. Einn af þingmönnum Kristilegra demókrata í Þýskalandi hefur farið fram á slíkt og vill að jákvæðri hliðar þessa heiðursmerkis verði endurvaktar.

Járnkrossinum var komið á fót sem heiðursmerki af Friðriki Vilhjálmi þriðja konungi Prússlands árið 1813. Hann var síðar notaður sem æðsta heiðursmerki þýska hersins í báðum heimstryjöldunum.

Talsmaður varnarmálaráðuneytisins segir að engin áform séu uppi um að endurvekja hann en hinsvegar sé sjálfsagt að stofna nýtt heiðursmerki fyrir herinn. Hönnun þess hefur hinsvegar ekki verið ákveðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×