Erlent

Hvalveiðiráðið vill sætta andstæðar fylkingar

Hnúfubakur í Ástralíu.
Hnúfubakur í Ástralíu. MYND/AFP

Alþjóða hvalveiðiráðið stefnir að fundi í London sem miðar að því að finna einhvern sameiginlegan flöt meðal þjóða sem eru með og á móti hvalveiðum. Þetta er aukafundur og stendur hann fram á laugardag.

Sumar þjóðir sem eru á móti hvalveiðum hafa áhuga á að komast að málamiðlun við Japani. Aðrar þjóðir eru enn alfarið á móti endurupptöku hvalveiða í hagnaðarskyni. Japanar segja möguleika á því að þeir gangi úr ráðinu ef ekki komi til áhrifaríkari funda.

Ráðið mun leita til sérfræðinga sem hafa stýrt öðrum stofnunum í gegnum erfiðar samningaviðræður. Raul Estrada Oyuela sem stýrði viðræðum um Kyoto bókunina er meðal þeirra auk Alvaro de Soto sem fór fyrir viðræðum sem enduðu borgarastríðið í El Salvador árið 1991. Hann hefur einnig unnið í Miðausturlöndum og á Kýpur.

William Hogarth formaður Alþjóða hvalveiðiráðsins segist ekki sjá mikla framtíð fyrir verndun hvala ef aðilar taki ekki skref fram á við. Hann vonast til að reynsla sýni að andstæðar fylkingar geti unnið saman á áhrifaríkan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×