Erlent

Olmert vígreifur gegn Hamas á Gaza

Fréttamenn og lögregla hlaupa í skjól í eldflaugaárás á ísraelska bæinn Sderot sem er nokkra kílómetra frá landamærum að Gaza.
Fréttamenn og lögregla hlaupa í skjól í eldflaugaárás á ísraelska bæinn Sderot sem er nokkra kílómetra frá landamærum að Gaza. MYND/AFP

Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels hefur heitið því að halda árásum áfram gegn herskáum uppreisnarmönnum á Gaza þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið hvetji til að Ísraelar haldi að sér höndum. Olmert sagðist ekki hafa nein áform um að hætta baráttunni, „jafnvel ekki í eina mínútu," er haft eftir honum á fréttavef BBC.

Ban Ki-moon hefur farið fram á það við Ísrael og Palestínu að binda endi á margra daga ofbeldi. Að minnsta kosti 61 Palestínumaður féll í árásum Ísraela í gær, þar af að minnsta kosti 13 óbreyttir borgarar. Átta börn voru í þeim hópi samkvæmt heimildum lækna. Tveir ísraelskir hermenn létust einnig í árásunum. Meira en 150 Palestínumenn slösuðust og sjö Ísraelar.

Skrifstofur Hamas í Gazaborg voru meðal annars skotmark ísraelskra herflugvéla í gær. Fimm Palestínumenn létust í þeirri árás og skrifstofurnar eyðilögðust.

Skot heyrast hér og þar á Gaza og jarðafarir fara fram víða á svæðinu í dag.

Ísraelar hófu árásirnar á miðvikudag sem svar við eldflaugaárásum Hamasliða á suðurhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×