Erlent

Samkomulag náðist í Kenía

Kofi Annan og Raila Odinga í Naíróbí í gær.
Kofi Annan og Raila Odinga í Naíróbí í gær. MYND/AFP

Mwai Kibaki forseti Kenía og Raila Odinga leiðtogi stjórnarandstöðunnar hafa náð samkomulagi sem miðar að því að ná tökum á ofbeldisöldu sem riðið hefur yfir landið frá úrslitum forsetakosninganna. Kofi Annan tilkynnti þetta eftir fjögurra klukkustunda fund með leiðtogunum í dag.

Samsteypustjórn verður mynduð en Annan vildi ekki gefa frekari upplýsingar þar sem leiðtogarnir eiga eftir að funda með flokksmönnum sínum. Annan sagðist búast við að undirskrift samkomulagsins gæti farið fram í dag.

Rúmlega 1.500 manns hafa látist í ofbeldisöldunni síðustu tvo mánuði og meira en 600 þúsund hafa flúið heimili sín. Odinga heldur því fram að hann hafi verið rændur sigri í forsetakosningunum sem fram fór í lok desember. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar segja að gallar hafi verið á framkvæmt kosninganna.

Viðræðurnar hafa einkum snúið að því að stofna embætti forsætisráðherra og ákveða hvaða völd hann hefði. Odinga myndi að öllum líkindum sinna því embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×