Erlent

Mótmælum á þaki breska þingsins lokið

Sex mótmælendur sem komust upp á þak breska þingsins í London í morgun og mótmæltu þar stækkun Heathrow flugvallar hafa verið handteknir af lögreglu.

Mótmælin stóðu yfir í um þrjá klukkutíma en fólkið hlekkjaði sig við þak byggingarinnar. Rannsókn er hafin á því hvernig fólkið komst inn. Talið er að það hafi komið inn á gestapössum og klifrað upp á þakið af brunastiga.

Mótmælendurnir eru úr umhverfishópnum Plane Stupid sem berst gegn hlýnun jarðar. Þeir klifruðu upp á þak Westmminster byggingarinnar og komu fyrir borðum sem á stóð "Höfuðstöðvar bresku flugumferðarstjórnarinnar" og "Engin þriðja flugbraut".

Heimildarmenn Sky fréttastofunnar telja að borðunum hafi verið komið fyrir inni í byggingunni áður en mótmælendurnir létu til skarar skríða.

Gordon Brown forsætisráðherra var með skilaboð til þeirra í vikulegum spurningatíma þar sem hann sat fyrir svörum þingmanna í hádeginu. "Ákvarðanir í þessu landi ættu að vera teknar í þingsölum þessa húss, en ekki á þakinu," sagði hann.

Leo Murray einn mótmælenda talaði við Sky fréttastofuna af þaki þinghússins. Hann sagði að hópurinn hefði fengið sér tebolla á kaffistofunni og síðan tekið lyftuna upp á þakið. Atvikið hefur vakið áleitnar spurningar um öryggi en lengi hefur verið óttast að þingið gæti orðið skotmark hryðjuverkamanna.

"Við erum komin að rótum lýðræðis til að benda á hversu fáránlega ólýðræðisleg þessi ríkisstjórn er orðin," sagði hann og benti á að áætlanirnar væru í algjöru ósamræmi við stefnu Breta í loftslagsmálum.

Mótmælendurnir sýndu ekki mótþróa þegar þeir voru leiddir á brott af lögreglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×