Erlent

Dómsdagshvelfingin á Svalbarða vígð í dag

Hvelfingin á að þola kjarnorkuárás og jarðskjálfta.
Hvelfingin á að þola kjarnorkuárás og jarðskjálfta. MYND/AP

Hin svokallaða dómsdagshvelfing á Svalbarða, sem getur geymt milljónir frætegunda, var formlega vígð í dag. Þar er um að ræða fræ mikilvægra plantna frá heiminum öllum og verða þau geymd í hvelfingunni sem djúpt í jörðu.

Fram kemur í frétt Norðurlandaráðs að líffræðilegur fjölbreytileiki eigi undir högg að sækja, ekki síst vegna aukinna loftslagsbreytinga. Náttúruhamfarir gætu orðið afdrifaríkar fyrir plöntuauðlindir jarðar en með öryggisgeymslunum á Svalbarða verði tryggt að þurrkar og flóð útrými ekki mikilvægum tegundum.

Alls verður hægt að geyma 4,5 milljónir frætegunda í hvelfingunni, þar á meðal fræ af nær öllum tegundum grænmetis, ávaxta og annarra tegunda sem til eru í heimunum. Við opnun öryggisgeymslunnar eru þegar geymdar rúmlega 250.000 frætegundir, þar af nær 13.000 norrænar tegundir.

Frægeymslan á Svalbarða er í raun þrír hellar sem sprengdir eru rúmlega hundrað metra niður í bjargið. Norðmenn byggðu og eiga geymslurnar en Norræna ráðherranefndin tekur virkan þátt í starfinu. Norræna stofnunin NordGen, sem vinnur að verndun erfðaauðlinda, mun sjá um rekstur geymslunnar.

„Staðsetning geymslunnar er eins hagstæð og hugsast getur með tilliti til geymslu plöntufræja. Sífrerinn og staðsetning geymslunnar langt niður í iðrum jarðar tryggir að fræin haldast frosin, jafnvel þó að rafmagnslaust verði," segir í frétt Norðurlandaráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×