Erlent

79 Kúrdar hafa fallið í átökum við Tyrki

Tyrknesk yfirvöld sögðu í dag að 79 kúrdískir uppreisnarmenn hefðu fallið í átökum við tyrkneska herinn í norðurhluta Írak síðan hersveitir fóru inn í landið á fimmtudagskvöld. Sjö tyrkneskir hermenn hafa fallið í sömu átökum að sögn yfirvalda.

Tyrkir segjast vera að uppræta hryðjuverkahópa Kúrda á svæðinu en talið er að um 2000 skæruliðar PKK samtakanna haldi til í fjalllendi við landamæri Norður-Írak og Tyrklands. Sókn Tyrkja inn á íraskt landsvæði hefur valdið miklum titringi og hafa bæði írösk og bandarísk yfirvöld varað Tyrki við afleiðingum þess ef átökin fari úr böndunum.

Er þetta fyrsta staðfesta hernaðaraðgerð Tyrkja í landinu frá því Bandaríkin leiddu innrásina í Írak árið 2003. Uppreisnarsveitir PKK hafa barist fyrir sjálfstæði Kúrda í suðausturhluta Tyrklands síðan 1984.

Talsmaður PKK hefur sagt uppreisnarmennina reiðubúna undir átök við tyrkneska herinn. „Sveitir PKK eru að vernda írakskt landsvæði Kúrdistans og munu varna því að tyrkneski herinn nái langt inn í Írak."

Fulltrúar Bandaríkjahers sögðust telja að hernaðaraðgerðin myndi vera „takmörkuð að tímalengd" og að henni væri sérstaklega beint gegn kúrdískum uppreisnarmönnum sem standa fyrir tíðum árásum á tyrknesk landsvæði frá búðum sínum handan landamæranna.

Forseti Íraks, Jalal Talabani, hringdi í utanríkisráðherra Tyrklands, Abdullah Gul, í gær og sagði að „Tyrkland ætti að virða einingu Íraks og fullveldi og ekki ráðast inn í landið".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×