Erlent

Fara fram á þunga dóma yfir brennuvörgum í Danmörku

MYND/AFP
Lögregluyfirvöld í Danmörku hyggjast fara fram á það að þau ungmenni sem staðið hafa fyrir íkveikjum í landinu undanfarin kvöld fái þunga refsingu, jafnvel margra ára fangelsi.

 

Í Kaupmannahöfn einni hefur verið kveikt í á um 200 stöðum á átta dögum. Með íkveikjunum hafa ungmennin verið að mótmæla því að dönsk blöð endurbirtu skopmyndir af Múhameð spámanni eftir að upp komst að til stóð að ráða einn teiknara þeirra af dögum.

 

Lögreglan bendir á að íkveikjur sé ekki eins og hvert annað rúðu- eða speglabrot. ,, Þau skilja ekki afleiðingar íkveikjanna en við munum fara fram á þungar refsingar," er haft eftir yfirmanni hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn í Jótlandspóstinum.

 

Í dönskum lögum er ákvæði um vægar refsingar fyrir íkveikju sem hljóðar upp á allt að sex ára fangelsi. Hins vegar er einnig ákvæði um þyngri refsingar, allt að lífstíðarfangelsi, til að mynda fyrir að kveikja eld í nágrenni íbúða eða í skólum og stofnunum. Fram hefur komið að kveikt hefur verið í nokkrum skólum og segir lögregla að í nokkrum tilvikum verði sóst eftir því að ungmenni verði dæmd á grundvelli ákvæðisins um þyngri refsingar.

 

Rannsókn brunanna er mislangt á veg komin en mun að líkindum taka nokkra mánuði. Alls hafa 43 setið í gæsluvarðhaldi vegna óeirðanna í Danmörku. Flestir þeirra eru piltar á aldrinum 16-18 ára, af erlendum uppruna og koma úr fjölskyldum sem eiga erfitt uppdráttar.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×