Erlent

Gætu þurft að fresta því að skjóta niður njósnahnött vegna veðurs

Bandarísk hermálayfirvöld gætu þurft að fresta því vegna veðurs að skjóta niður njósnahnött sem stefnir til jarðar.

Fram kemur á fréttavef Breska ríkisútvarpsins að bandarísku herskipin, þaðan sem ætlunin er að skjóta eldflaug að hnettinum, sigli í miklum ólgusjó á Kyrrahafi og öldugangurinn sé of mikill til þess að skipin komist í rétta skotstöðu.

Ætlunin er að skjóta njósnahnöttinn áður en hann kemur inn í andrúmsloftið en fram hefur komið að eldsneyti hans, hýdrasín, er hættulegt við snertingu.

Gervihnötturinn, sem gengur undir nafninu USA 193, varð stjórnlaus skömmu eftir að honum var skotið á loft í desember 2006. Hafa bandarísk yfirvöld beint því til sjófarenda og flugvéla að vera ekki á sveimi nærri tilteknu svæði á Kyrrahafinu í nótt ef tækifæri gefst til að skjóta hnöttinn niður.

Bandaríkjamenn hafa verið sakaðir um að vera bregðast við tilraunum Kínverja til að skjóta niður gervihnetti í fyrra með aðgerðinni og þannig kynda undir geimvopnakapphlaupi en því hafna þeir alfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×