Erlent

Tígrisdýrinu mögulega ögrað

MYND/AP

Lögreglan í San Francisco í Kaliforníu rannsakar nú hvort hlutir sem fundust við búr tígrisdýrsins sem varð einum að bana og slasaði tvo á jóladag, hafi verið notaðir til að ögra dýrinu eða hafi verið hent í það áður en það slapp.

Tatiana sem var 175 kílóa síberískur tígur var skotin til bana eftir árásina. Lögregla rannsakar nú stóran stein, trjágrein og aðra hluti í tengslum við málið samkvæmt upplýsingum Sam Singer talsmanns dýragarðsins. Verið er að kanna hvort þessir hlutir hafi verið notaðir til að reita Tatiana til reiði með þeim afleiðingum að hún komst út úr búrinu.

Heather Fong lögreglustjóri sagði að verið væri að rannsaka skófar á handriði við útisvæði tígrisdýranna til að ákveða hvort eitt fórnarlambanna hafi klifrað yfir handriðið.

Nú er verið að tryggja öryggi í dýragarðinum áður en hann opnar að nýju í dag. Veggurinn í kringum íverustað tígrisdýranna verður hækkaður í tæplega 10 metra úr fjórum auk þess sem öryggisvörðum verður fjölgað og kallkerfi komið upp til að láta gesti vita ef til annars neyðaratviks kæmi. Þá verða tígrisdýr og ljón geymd inni þar til endanlega verður búið að tryggja öryggi á útisvæði þeirra.

Bræðurnir tveir sem lifðu af árás Tatiönu sögðu að í 30 mínútur hefðu þeir ekki fengið hjálp öryggisvarða þar sem þeir voru ekki teknir alvarlega.

Tígrisdýrið hoppaði yfir fjögurra metra vegg og drap Carlos Sousa auk þess að slasa vini hans.

Auk þess að finna stóran stein og trjágrein sem starfsfólk man ekki eftir að hafa séð inni á svæði tígrisdýranna fyrir atburðinn, var lögregla látin vita af tómri vodkaflösku í bílnum sem mennirnir komu í í garðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×