Einn af blaðamönnum DV sagði upp störfum í dag eftir að Reynir Traustason, ritstjóri blaðsins, varð uppvís að því að því að vera tvísaga. Ritstjórinn segir það ekki koma til álita að segja starfi sínu lausu.
Síðan að Kastljósið birti upptöku af samtali Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, og Jóns Bjarka Magnússonar, fyrrum blaðamanns, hafa margir sent frá yfirlýsingu þess efnis að þeir teljist ekki til stóru aðilanna sem Reynir nefndi í samtalinu. Hreinn Loftsson, eigandi DV, Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum eigandi DV, Nýi Landsbankinn og Björgólfur Guðmundsson, sem var títt nefndur í samtali Reynis og Jóns Bjarka, hafa allir svarið það af sér að hafa haft afskipti af ritstjórn DV. Fréttastofa reyndi ítrekað að ná tali af Sigurjóni Árnasyni í dag í síma og í húsi Landsbankans við Pósthússtræti - án árangurs.
Í dag funduðu blaðamenn DV fyrst um málið án ritstjóranna en síðar með ritstjórum. Blaðmenn vildu ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins.
Ekki eru allir blaðamenn DV þó sáttir við framgöngu Reynis og til marks um það sagði einn þeirra, Valur Grettisson, upp störfum í dag. Hann sagði í samtali við fréttastofu ekki geta starfað á fjölmiðli þar sem ritstjórinn lýgur og ritskoðar.
Stjórn Birtings, útgáfufélag DV, fundaði einnig í dag og samkvæmt heimildum fréttastofu var tekin ákvörðun um að ekki yrði krafist uppsagnar Reynis.
Fréttastofa reyndi ítrekað að ná tali af Reyni eftir hádegi í dag, án árangurs. Fyrir hádegi veitti hann fréttastofu símaviðtal þar sem hann sagði ljóst að trúverðugleiki blaðsins hafi beðið hnekki.
Ekki náðist í Hrein Loftsson, eiganda DV, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.