Innlent

Stöðvaði ekki fréttina

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Birtings.
Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Birtings.

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Birtings, sem gefur út DV segist ekki hafa gert neina kröfu um að birting fréttar um Sigurjón Árnason, fyrrveranda Landsbankastjóra, yrði stöðvuð.

Jón Bjarki Magnússon, fyrrverandi blaðamaður á DV, greinir frá því á vefritinu NEI í dag að Reynir Traustason, ritstjóri DV, hafi stöðvað birtingu greinar sem hann skrifaði um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóra Landsbankans í byrjun nóvember. Fréttin hafi snúist um að Sigurjón væri að koma á fót ráðgjafarfyrirtæki í húsnæði Landsbankans og að hann vonaðist eftir verkefnum frá Landsbankanum.

„Ég verð að vísa til Reynis með þetta mál. Ég er ekki að skipta mér af fréttaflutningi af þessu tagi hjá DV eða dv.is eða öðrum miðlum hjá Birtingi," segir Hreinn í samtali við Vísi. Hreinn segist hins vegar oft hafa ákveðnar skoðanir á því sem þar sé skrifað. Hann geri kröfur um það að menn gæti allra sjónarmiða og segi satt og rétt frá. Hann hafi iðulega gert athugasemdir við orðalag og framsetningu.

„Ég er alls ekki sáttur við allt sem fram kemur á DV, bara svo að það liggi fyrir. En að ég sé að hlustast til um það hvað þar birtist eða þar birtist ekki er alveg af og frá," segir Hreinn. Ritstjórn DV ákveði það algjörlega sjálf.

Reynir Traustason ritstjóri DV sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins í morgun að það væri bull að óeðlilegar ástæður hafi legið að baki því að ákveðið var að birta ekki frétt Jóns Bjarka í blaðinu. Fréttin hafi einfaldlega verið gömul og ekki bætt neinu við það sem þegar hafði fram komið á fréttavefnum Eyjunni.

Jón Bjarki Magnússon sem skrifaði fréttina segist í samtali við Vísi standa við það að Reynir hafi sagt að aðilar úti í bæ hafi viljað stoppa fréttina. Hann kveðst hafa hætt störfum hjá DV í gær.

„Ég sendi Reyni póst í gær þar sem ég sagði honum að ég ætlaði að hætta, og myndi segja frá þessu. Við ræddum þetta síðan í tvo tíma og ég ræddi líka við Jón Trausta (hinn ritstjóra DV) þar sem þeir reyndu að fá mig til þess að hætta við þetta. Ég taldi hinsvegar nauðsynlegt að þetta kæmi fram," segir Jón Bjarki sem starfað hefur á DV síðan í júní.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.