Erlent

Formennska í hendur efahyggjumanns

Formennskuáætlun kynnt Karl zu Schwarzenberg utanríkisráðherra, Mirek Topolanek forsætisráðherra og Alexandr Vondra Evrópumálaráðherra kynna ESB-formennskuáætlun Tékka í Brussel 11. desember síðastliðinn.
Formennskuáætlun kynnt Karl zu Schwarzenberg utanríkisráðherra, Mirek Topolanek forsætisráðherra og Alexandr Vondra Evrópumálaráðherra kynna ESB-formennskuáætlun Tékka í Brussel 11. desember síðastliðinn. nordicphotos/afp

Tékkar taka um áramótin við formennskunni í Evrópusambandinu af Frökkum, en á eftir Slóvenum eru Tékkar þar með önnur fyrrverandi austantjaldsþjóðin sem gegnir formennskuhlutverkinu.

Þar sem tékkneski forsetinn, Vaclav Klaus, er þekktur fyrir að vera þjóðernissinnaður efasemdamaður um Evrópusamrunann, og íhaldsflokkur hans og forsætisráðherrans Mireks Topolanek, ODS, þykir deila þeirri hugmyndafræði, eru margir spenntir að sjá hvernig hinni sundurlyndu samsteypustjórn Topolaneks, sem ræður ekki yfir þingmeirihluta, ferst formennskuhlutverkið úr hendi.

Klaus er að vísu nýgenginn úr ODS, flokknum sem hann stofnaði sjálfur eftir fall kommúnismans að fyrirmynd breska Íhaldsflokksins. Hann yfirgaf flokkinn í því skyni að leggja sitt af mörkum til að lægja innanflokksdeilur, en óvíst er að það dugi til.

Víst er að alþjóðlega fjármálakreppan mun setja mjög mark sitt á formennskumisseri Tékka. Þá er þess líka vænst að örlög Lissabon-sáttmálans svonefnda skýrist á tímabilinu, en Klaus forseti hefur neitað að undirrita staðfestingu sáttmálans fyrir Tékklands hönd uns ljóst er orðið hvað írska stjórnin ætlar að gera eftir að írskir kjósendur höfnuðu staðfestingu sáttmálans í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar sem leið.

Írlandsstjórn hefur boðað nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í haust það er í formennskutíð Svía eftir að komið hefur verið til móts við helstu áhyggjuefni Íra varðandi sáttmálann, í samræmi við það sem um samdist á leiðtogafundi ESB í desember.

Önnur helstu áherslumál Tékka í formennskuhlutverkinu í ESB verða þessi: að gæta hagsmuna smærri aðildarríkja, að ríkisafskipti af efnahagsmálum skuli vera takmörkuð, að grannríki ESB í austri skipti máli og tengslin yfir Atlantshafið skipti meira máli en tengslin við Rússa.

Fari svo að Ísland ákveði að leggja inn aðildarumsókn að ESB í vor myndi það verða Karl zu Schwarzenberg fursti, utanríkisráðherra Tékklands, sem tæki við umsókninni fyrir hönd sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×