Erlent

Reiknar raunaldur með aðstoð orma

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Vísindamenn í Kaliforníu segjast nú geta reiknað út raunverulegan líffræðilegan aldur fólks, óháð aldri þess í árum.

Þú ert aldrei eldri en þér finnst þú vera, hermir gamalkunnugt orðatiltæki og hver veit nema það sé hárrétt eftir allt saman. Meira að segja í vísindalegu tilliti. Við Buck-öldrunarrannsóknarstöðina í Kaliforníu starfar maður að nafni Simon Melov. Hann telur sig nú hafa leyst gátuna á bak við það hvers vegna sumu fólki sem komið er fast að áttræðu finnst það ekki degi eldra en fimmtugt og því miður líka öfugt.

Melov notaði einfaldlega orma við rannsókn sína, 104 stykki. Þessi tegund orma lifir ekki að jafnaði nema þrjár vikur sem auðveldar málin þegar kemur að aldursrannsóknum. Með því að skoða erfðafræðilega þætti þeirra orma sem sýndu svipuð öldrunareinkenni tókst Melov að skilgreina hvað það er í genamengi þeirra sem stjórnar hinum líffræðilega aldri.

Með þessar niðurstöður upp á vasann þykist hann þess fullviss að hægt sé að ákvarða öldrunarstig fólks óháð því hvað kennitalan segir það hafa lifað mörg ár. Næst hyggst Melov skoða sömu þætti hjá músum og að lokum hjá mönnum - endist honum aldur til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×