Erlent

Hillary Clinton táraðist í New Hampshire

Forkosningarnar í New Hampshire eru í dag og það lítur allt út fyrir að demókratinn Barak Obama og repúblikaninn John McCain muni fara með sigur af hólmi

Greinilegt er að kosningabaráttan hefur tekið mjög á Hillary Clinton og flestir fjölmiðlar í Bandaríkjunum greina frá því að hún hafi tárast í kaffiboði með sextán öðrum konum í gærdag. Hún var að ræða stefnu sína við konurnar er rödd hennar brast og hún táraðist í kjölfar spurningar um hvernig hún færi að þvi að standast álagið í kosningabaráttunni.

Og það hefur vart bætt ástandið hjá Hillary að í gær var birt skoðanakönnun á landsvísu sem sýnir að Obama nýtur nú jafnmikils fylgis og hún eða 33%. Fyrir aðeins tveimur mánuðum mældist fylgi Obama 18% á landsvísu.

Á einum stað í New hampshire, smábænum Dixville Notch, er búið að kjósa og atkvæði hafa verið talin. Innan við tuttugu kusu og athygli vekur að enginn demókrati kaus Hillary. Obama fékk flest atkvæði eða sjö talsins og John Edwards fékk 2 atkvæði. Hvað repúblikana varðar fékk John McCain fjögur atkvæði, Mitt Romney tvö og Rudy Guiliani eitt atkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×