Erlent

Skipulögðu árás á lestarstöðina í Vejle

MYND/AP

Til stóð að gera sjálfsmorðssprengjuárás á lestarstöðina í Velje en árásarmennirnir hættu við. Þetta kom fram við vitnaleiðslur í Eystri landsrétti í Danmörku yfir mönnum sem tengjast svokölluðu Vollsmose-máli. Málið kom upp í Vollsmose í Óðinsvéum í fyrra og voru þá sjö handteknir vegna málsins.

Í yfirheyrslum í dag sagði einn sakborninga að annar maður sem er einnig ákærður í málinu hefði lagt á ráðin um að fara inn á lestarstöðina í Velje með sprengju í bakpoka og sprengja sig í loft upp. Þriðji maðurinn hefði hins vegar komið í veg fyrir það þar sem hann óttaðist að múslímar myndu látast í tilræðinu.

Þetta er annan daginn í röð í Vollsmose-réttarhöldunum sem upplýsingar um sprengjutilræði koma fram. Í gær var greint frá því að hluti mannanna sem ákærðir eru hefði lagt á ráðin um að keyra fjarstýrðum bíl, fullum af sprengiefni, inn í hús menningarritstjóra Jótlandspóstsins til þess að hefna Múhameðsteikninganna svokölluðu sem blaðið birti í hitteðfyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×