Erlent

Reynt að draga dráttarbát til hafnar á Hjaltlandseyjum

MYND/AP

Björgunarskip hóf í dag að reyna að bjarga norska dráttarbátnum Bourbon Dolphin, sem hvolfdi úti fyrir Hjaltlandseyjum í fyrrakvöld, til hafnar. Fimm Norðmannamanna er saknað eftir að bátnum hvolfdi, þar á meðal 15 mánaða drengs og föður hans.

Þrír menn úr áhöfn bátsins fundust látnir og tíu var bjargað úr sjónum í fyrrakvöld. Kafarar reyndu í gær að komast inn í bátinn þar sem talið var að fimmmenningarnir gætu verið í litlu loftrými inni í bátnum en hætt var við það vegna þess að óttast var að báturinn sykki.

Rannsakað verður hvers vegna bátnum hvolfdi þegar komið verður með hann til hafnar um miðja næstu viku en hann var að eiga við akkeri olíuborpalls þegar slysið varð.

Stór hluti áhafnar bátsins var frá norska bænum Fosnavaag og hefur Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sent Jens Stoltenberg, starfsbróður sínum í Noregi, samúðarkveðjur vegna slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×