Erlent

Mikil skelfing þegar gufuleiðsla sprakk í New York

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Nú er talið að einn hafi látist og 26 slasast þegar gufuleiðsla sprakk á háannatíma við Grand Central lestarstöðina í New York í gær.

Sprengingin olli töluverðum ótta í borginni því að í fyrstu var talið að um hryðjuverkaárás væri að ræða. Hundruðir manna flúðu þá vettvang. Fólk hljóp í burt, æpandi og grátandi og ökumenn keyrðu á móti umferð. Misskilningurinn var fljótlega leiðréttur og ró komst á.

Slökkviliðinu í New York barst tilkynning um klukkan sex síðdegis að staðartíma og voru um 170 slökkviliðsmenn sendir á staðinn. Viðbrögð björgunarmanna voru mjög skjót og var svæðinu lokað á augabragði. Við sprenginguna fór asbest í loftið og verið er að kanna hvort svæðið sé mengað. Svæðið verður ekki opnað fyrr en að þeim athugunum loknum.

Slökkviliðið sagði að þrír slökkviliðsmenn og einn lögreglumaður hefðu þurft aðhlynningu á slysstað vegna minniháttar áverka. Aðrir sem slösuðust voru fluttir á spítala.

Gufuleiðslan sem sprakk er frá árinu 1924. Talið er að sprengingin hafi orðið vegna þess að kalt vatn hafi komist inn í leiðsluna en við það springa slíkar leiðslur gjarnan. Nýlega hafði verið búið að kanna gufuleiðsluna og gáfu athuganir ekki til kynna að nokkuð gæti verið að þeim.

Þrír létust þegar gufuleiðsla sprakk í New York borg árið 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×