Erlent

Segir frekari hryðjuverkaárásir á Bandaríkin mögulegar

Úr myndbandi sem sent var fjölmiðlum árið 2004.
Úr myndbandi sem sent var fjölmiðlum árið 2004. MYND/AFP

Bandaríkjamönnum hefur enn ekki tekist að koma veg fyrir að hægt sé að gera hryðjuverkaárás þar í landi. Þetta kemur fram í ræðu Osama bin Laden, leiðtoga Al Kaída samtakanna, í myndbandi sem gert var í tilefni af því að sex ár eru liðin frá árásinni á tvíburaturnana í New York. Sérfræðingum hefur ekki tekist að sannreyna að myndbandið sé nýtt.

Í myndbandinu segir Osama bin Laden að þrátt fyrir að Bandaríkjamenn séu öflugasta efnhags- og herveldið á jörðu hafi þeim ekki tekist að koma í veg fyrir að hægt sé gera frekari hryðjuverkaárásir þar í landi. Þá minnist Osama bin Laden þeirra manna sem frömdu hryðjuverkaárásina á tvíburaturnana í New York árið 2001.

Reuters fréttastofan hefur undir höndum brot úr myndbandinu en ekki hefur tekist að sannreyna að um nýtt myndband sé að ræða. Í myndbandinu situr Osama bin Laden við borð klæddur hvítum kufli og með hvítan hatt á höfði. Á borða fyrir neðan hann stendur ritað að ræðunni sé beint til bandarísku þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×