Erlent

Bush vill auka lýðræðisþróun á Kúbu

MYND/AFP

Bush Bandaríkjaforseti lagði í dag fram fjölmargar tillögur sem snúa að því að auka lýðræði á Kúbu. Vill forsetinn meðal annars auka stuðning við lýðræðisleg öfl á Kúbu og opna fyrir hvers konar góðgerðarstarfsemi þar í landi.

Bush sagðist vera tilbúinn til þess að leyfa bandarískum góðgerðarsamtökum að gefa kúbverskum skólum tölvubúnað en aðeins með því skilyrði að stjórnvöld í Kúbu hætti að takmarka aðgang að Netinu.

Þá sagðist Bush vera reiðubúinn að láta stofna sérstakan sjóð sem muni standa Kúbverjum opinn um leið og lýðræði kemst á þar í landi. Ennfremur hvatti hann aðrar þjóðir til að sýna þeim sem berjast fyrir lýðræði á Kúbu stuðning.

Bush ítrekaði að Bandaríkjamenn ætluðu sér þó ekki að fella niður viðskiptabann sitt á Kúbu. Slíkt myndi, að sögn Bush, að aðeins styrkja kommúnistastjórnina í sessi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×