Erlent

Vilja opinbera rannsókn á Omagh-árás

Ættingjar þeirra 29 sem voru myrtir í sprengjuárás í bænum Omagh á Norður-Írlandi 1998 krefjast opinberrar rannsóknar á ódæðinu. Eini maðurinn sem ákærður hefur verið fyrir morð í tenglsum við árásina var sýknaður í gær. Dómari sagði rannsókn lögreglu stórgallaða.

Tilræðin í Omagh voru þau mannskæðustu í aldarfjórðungsskæruhernaði á Norður-Írlandi. Tuttugu og níu féllu - þar á meðal konur, unglingar og ung börn. Þess fyrir utan hlutu fjölmargir örkuml. Dómstóll í Belfast sýknaði manninn, Sean Hoey, af öllum ákærum í málinu í gær.

Dómari gagnrýnir rannsókn lögreglu harðlega og sagði hana hafi verið illa framkvæmd. Svo illa að tveir lögreglumenn hafi orðið uppvísir af lygum við yfirheyrslur verjenda. Þeir hafi viljað verja gjörðir sínar og starfsbræðra sinna í málinu með þeim hætti.

Ættingjar hinna látnu hafa lengi gagnrýnt meðhöndlun málsins og sagt bresk yfirvöld draga lappirnar. Þessi niðurstaða sé sönnun þess og því sé nauðsynlegt að málið verði tekið fyrir á æðstu stöðum. Bresk og írsk yfirvöld eigi að skipa sérstaka rannsóknarnefnd en í henni eigi sæti fulltrúar beggja megin landamæranna.

Einn maður hefur hlotið dóm fyrir aðild að ódæðnum - Colm Murphy, bareigandi á Írlandi og frændi Hoeys - var dæmdur í fjórtán ára fangelsi 2002. Dómari í Dublin hnekkti þeim dóm 2005. Mál Murphy verður aftur tekið fyrir innan tíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×