Erlent

Þingkosningar í Danmörku 13. nóvember

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði til þingkosninga í landinu þann 13. nóvember í ræðu á danska þinginu fyrir stundu. Sagðist hann þegar hafa greint Margéti Danadrottningu frá því.

Rasmussen sagði á þinginu í dag að nauðsynlegt væri að skapa ró um vinnu við umbótahugmyndir ríkisstjórnarinnar sem meðal annars fela í sér breytingar á velferðar- og skattakerfi landsins. Þannig boðaði ríkisstjórn Rasmussen skattalækkanir sem eru að taka gildi þessi dægrin en jafnaðarmenn gagnrýndu þær og sögðu þær koma niður á velferðarkerfinu. Búist er við að þessi mál og jafnvel nýr samningur Evrópusambandsins, sem kemur í stað hugmynda um stjórnarskrá, verði einnig til umræðu í kosningabaráttunni.

Eftir því sem segir á vef Jótlandspóstsins þýðir þetta að kosningabaráttan verður ein sú stysta í sögu Danmerkur eða 20 dagar. Rasmussen hefði ekki þurft að boða til kosninga fyrr árið 2009 en engar reglur eru í dönsku stjórnarskránni um það hversu langur tími skuli líða milli þess að boðað sé til kosninga og að kosningarnar sjálfar séu haldnar. Þetta er þó ekki einsdæmi. Síðast stóð kosningabaráttan í 20 daga þegar Poul Nyrup Rasmussen boðaði til kosninga í nóvember 2001.

Hefð er fyrir því að halda kosningar í Danmörku á þriðjudegi en dæmi eru þó um að þær hafi farið fram á öðrum degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×