Erlent

Þúsundir frelsaðar í Pakistan

Jemima Khan fyrrverandi eiginkona Imran Khan stjórnarandstöðuleiðtoga hrópar slagorð í mótmælum gegn stjórn Musharrafs í London.
Jemima Khan fyrrverandi eiginkona Imran Khan stjórnarandstöðuleiðtoga hrópar slagorð í mótmælum gegn stjórn Musharrafs í London. MYND/AFP

Pakistanska ríkisstjórnin segist hafa leyst um 3.400 stjórnarandstæðinga úr haldi. Fólkið var hneppt í varðhald eftir að neyðarlög voru sett í landinu 3. nóvember síðastliðinn. Lausn stjórnarandstæðinga hefur verið lykilkrafa stjórnarandstöðuflokka sem hóta að sniðganga þingkosningarnar í janúar. Fjöldi leiðtoga stjórnarandstæðinga er enn í haldi í landinu.

Pervez Musharraf forseti sagði neyðarlögin nauðsynleg til að stýra dómskerfinu og berjast gegn öfgamönnum.

Háttsettir menn úr Þjóðarflokki Pakistan sem Benazir Bhutto fer fyrir hittast í Karachi í dag til að ákveða til hvaða aðgerða er nú hægt að grípa.

Samkvæmt heimildum BBC mun 2.000 manns til viðbótar verða sleppt úr fangelsum innan skamms. Þó er ekki víst að Imran Khan fyrrverandi krikketstjarna og stjórnarandstöðuleiðtogi verði leystur úr haldi, en þess hefur verið krafist af stjórnarandstæðingum. Khan var fangelsaður eftir að hann krafðist þess að herstjórinn Musharraf hlyti dauðarefsingu fyrir að taka sér einræðisvald og setja neyðarlög í landinu.

Fréttaskýrandi BBC í Islamabad sagði að svo virðist sem ákvörðun Musharrafs um lausn fanganna væri tekin undir þrýstingi alþjóðasamfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×