Erlent

Sextán ára fangelsi fyrir að smygla 13 tonnum af hassi

MYND/Pjetur

Fertugur karlmaður var í dag dæmdur í 16 ára fangelsi í Kaupmannahöfn fyrir að reyna smygla 13 tonnum af hassi til Danmerkur.

Þá var hann dæmdur fyrir misheppnaða tilraun til þess að smygla hálfu tonni af kókaíni inn til landsins. Fram kemur á vef Jótlandspóstsins að um sé að ræða umfangsmesta smygl á hassi til Danmerkur í sögu landsins.

Hassinu var smyglað til Danmerkur með skipi árið 2003 en það hafði verið sótt til Marokkó. Það gerði maður sem dæmdur var í ævilangt fangelsi fyrir aðild sína að smyglinu. Hann var einnig dæmdur fyrir að myrða þann sem taka átti á móti efnunum og fyrir að reyna að smygla hálfu tonni af kókaíni til landsins.

Maðurinn sem dæmdur var í dag var sagður höfuðpaurinn í málinu. Hann var handtekinn í Brasilíu fyrir tæpum þremur árum og sat þar í gæsluvarðhaldi í 19 mánuði þegar hann var loks framseldur til Danmerkur. Þótti dómnum það svo íþyngjandi fyrir hinn dæmda að hver dagur í brasilísku fangelsi var látinn jafngilda þremur í Danmörku og kemur sá tími til frádráttar dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×