Erlent

Aðstandendur óánægðir með dóma í Madrídarmálinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fimm hinna dæmdu í glerbúri í réttarsal.
Fimm hinna dæmdu í glerbúri í réttarsal.
Aðstandendur fórnarlamba hryðjuverkanna sem framin voru í Madríd árið 2004 þykja nokkrir hinna dæmdu hafa fengið of væga dóma. Þeir hyggjast því áfrýja málum gegn þeim.

Einn aðstandandi fórnarlambanna sagði að of fáir hefðu verið dæmdir í málinu. Dómurinn úrskurðaði þrjá menn í þúsunda ára löng fangelsi fyrir aðild þeirra að árásunum. Sjö voru sýknaðir, þar á meðal Rabei Osman meintur höfuðpaur í málinu. Hann situr þó í fangelsi á Ítalíu, dæmdur fyrir að vera aðili að hryðjuverkahóp.

Jose Luis Rodriguez Zapatero sagði í gær að réttlætinu hefði verið fullnægt en stjórnarandstaðan á Spáni segir að enn sé fjölmörgum spurningum ósvarað varðandi ódæðisverkin.

191 fórst og 1800 særðust þegar fjórar farþegalestar voru sprengdar í Madríd þann 11. mars 2004. Tuttugu og einn var dæmdur í gær af þeim 28 sem ákærðir höfðu verið fyrir aðild að málinu. Allir höfðu þeir lýst yfir sakleysi sínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×