Erlent

Tuttugu og einn sakfelldur í Madrídarmáli

Hinir ákærðu hlýða á dómarana lesa upp úrskurði sína en það tók alllangan tíma vegna umfangs málsins.
Hinir ákærðu hlýða á dómarana lesa upp úrskurði sína en það tók alllangan tíma vegna umfangs málsins. MYND/AP

Dómstóll á Spáni sakfelldi 21 af 28 mönnum sem ákærðir voru fyrir aðild að hryðjuverkunum í Madríd á Spáni í mars 2004. Nærri tvö hundruð manns týndu lífi í sprengjuárásum á lestarstöð í borginni og hátt í tvö þúsund særðust.

Marokkóbúinn Jamal Zougam hlaut yfir 40 þúsund ára dóm þrátt fyrir að spænsk lög geri ráð fyrir að menn afpláni í mesta lagi 40 ár. Spánverjinn Emilio Suarez var einnig sakfelldur og hlaut jafnframt mörg þúsund ára dóm.

Sjö mannanna voru sýknaðir af aðild að málinu, meðal annar Rabei Osman Sayed Ahmed, sem einnig gekk undir nafninu Egyptinn Mohamed, en hann situr í fangelsi á Ítalíu fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum.

Nítján hinna ákærðu eru arabar - flestir frá Marokkó. Hinir níu eru Spánverjar. Allir lýstu yfir sakleysi sínu fyrir dómi. Mikill öryggisviðbúnaður var við dómshúsið í Madríd í morgun þegar hinir ákærðu voru fluttir þangað til að hlýða á dómsorð. Dómarinn byrjaði á því að lesa upp forsendur dómsins áður en hann hóf að kveða hann upp yfir hverjum fyrir sig.

Dómarinn í málinu kvað einnig upp þann úrskurð að spænsku aðskilnaðarsamtökin ETA hefðu ekki komið að árásunum, en stjórn íhaldsmanna á Spáni kenndi þeim um þær skömmu eftir tilræðin. Þær upplýsingar reyndust ekki réttar og leiddi það til þess að stjórnin féll í kosningum skömmu síðar og sósíalistar komust til valda á Spáni.

Mennirnir sem ákærðir voru eru sagðir hafa tilheyrt íslömskum uppreisnarhópi sem studdist við hugmyndafræði al-Qaida en tengdist samtökunum ekki beint. Sjö menn sem taldir voru höfuðpaurar í árásunum sprengdu sjálfa sig í loft upp þegar lögregla hugðist taka þá fasta í Madríd þremur vikum eftir árásirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×