Erlent

Konungur belgískra strokufanga handtekinn í Hollandi

Nordin Benallal í haldi belgísku lögreglunnar.
Nordin Benallal í haldi belgísku lögreglunnar. MYND/AFP

Hinn ókrýndi konungur strokufanga í Belgíu, Nordin Benallal, var handtekinn í Hollandi í dag eftir misheppnað rán þar í landi. Benallal strauk úr fangelsi í Belgíu á sunnudaginn eftir að hann og félagar hans tóku tvo fangaverði í gíslingu.

Flótti Benallal á sunnudaginn vakti mikla athygli í Belgíu. Félagar hans lentu þyrlu í fangelsisgarðinum og ætluðu síðan að fljúga með hann í burtu. Þegar þyrlan lenti hlupu fjölmargir fangar í átt að þyrlunni og ætluðu að fá að fljóta með. Þyrlan þoldi ekki þungan og brotlenti. Tveir slösuðust en þó ekki alvarlega.

Benallal náði að taka tvo fangaverði í gíslingu og þannig komast út úr fangelsinu. Var þetta í fjórða skiptið sem hann strýkur úr fangelsi í Belgíu. Áður hafði hann náð að sleppa með því að hlaupa í burtu frá fangavörðum á meðan verið var að flytja hann á milli fangelsa. Þá klifraði hann í eitt skiptið yfir fangelsisvegg með því að nota kaðal og síðast gekk hann hreinlega út úr fangelsinu með því að setja á sig hárkollu og sólgleraugu.

Benallal var á sínum tíma dæmdur í fangelsi fyrir vopnað rán og þjófnað. Hann var handtekinn í Haag í dag þar sem hann gerði misheppnaða tilraun til að ræna verslun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×