Erlent

Ætluðu að nota íslenska flugvél til að ræna börnum frá Afríku

Þórir Guðmundsson skrifar

Nota átti íslenska flugvél til að flytja fleiri en eitt hundrað börn ólöglega frá Afríkuríkinu Tsjad. Yfirvöld í landinu komu í veg fyrir flutningana og óvissa ríkir nú um afdrif barnanna, Evrópubúanna sem reyndu að fara með þau og flugvélarinnar, sem situr nú á flugvelli í Tsjad.

Íslenska flugvélin, TF-LLZ, situr á flugvelli í Abeche í Tsjad. Þetta er Boeing 757 200, sem þjónaði til farþegaflugs til og frá Íslandi en Loftleiðir yfirtóku í fyrra. Hún er í langtímaleigu til Spánar, til 2009, á svokölluðum þurrleigusamningi og því er áhöfnin sem nú situr í gæslu lögreglu í Tsjad spænsk en ekki íslensk.

Loftleiðamenn eru í stöðugu sambandi við spænska flugfélagið og spænsk yfirvöld eru að reyna að semja um að áhöfnin fái að fljúga burt með vélina. Stjórnvöld í Frakklandi segjast sömuleiðis munu gæta hagsmuna Frakkanna níu sem reyndu að smygla börnunum úr landi.

Rama Yade mannréttindaráðherra Frakklands segir að tilraunin til að flytja börnin til Frakklands hafi verið ólögleg og óábyrg og að frönsk stjórnvöld hafi reynt að vara samtökin við því að gera þetta. B

örnin eru á munaðarleysingjahæli í Tsjad, þar sem Rauði krossinn sér um þau. Forseti Tsjad heimsótti börnin í gær og sakaði frönsku samtökin sem ætluðu að ræna þeim um að hafa ætlað að selja þau barnaníðingum.

Sjálf hafa börnin sagt að Frakkarnir hafi gefið þeim sælgæti og lokkað þau frá heimilum þeirra á landamærum Tsjad og Darfúr héraðs í Súdan. Frakkarnir segjast hafa verið að koma munaðarleysingjum frá hinu stríðshrjáða Darfúr héraði til fjölskyldna í Evrópu - en miðað við framburð barnanna þá voru að minnsta kosti sum þeirra hvorki munaðarlaus né frá Darfúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×