Erlent

Sextán í haldi eftir misheppnað ættleiðingarflug frá Tsjad

Þórir Guðmundsson skrifar

Níu Frakkar og sjö spænskir flugliðar eru í haldi lögreglu í Tsjad eftir að reyna að fljúga með 103 börn frá Darfúr í Súdan úr landi. Börnin voru öll í flóttamannabúðum í Tsjad.

Börnin hafa nú verið flutt á munaðarleysingjahæli í Tsjad. Þar sér starfsfólk Rauða krossins um þau, en flest eru börnin á aldrinum þriggja til átta ára.

Forseti Tsjad segir að hér hafi verið um mannrán að ræða og að útlendingarnir sem um ræðir muni þurfa að borga fyrir þann glæp. Hann gekk á spænsku flugmennina í dag og sakaði þá um að aðstoða samtök barnaníðinga. Spænsku flugliðarnir segjast bara hafa verið fengnir til mannúðarflugs frá Tsjad til Frakklands; þeir hafi ekkert vitað um hvaðan börnin kæmu.

Frakkarnir tilheyra samtökum sem nefnast Örkin hennar Zoe. Þeir munu hafa ætlað að koma börnunum til Evrópu til ættleiðingar. Fjölskyldur, sem ætluðu að ættleiða börnin, biðu eftir þeim á flugvelli austur af París. Fólkið hafði borgað allt að hálfa milljón króna fyrir hvert barn.

Frakkarnir sem stóðu fyrir þessum flutningum segja að börnin séu öll munaðarlaus og komi úr búðum fyrir flóttamenn frá Tsjad. Sarkozy forseti Frakklands hefur hins vegar fordæmt gerðir þeirra og segir að svona eigi ekki að standa að ættleiðingum.

Kollegi hans í Tsjad segist munu sjá til þess að hinum meintu mannræningjum verði harðlega refsað og að svona nokkuð geti aldrei gerst aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×