Erlent

Arnold lofar að hafa hendur í hári brennuvarga

Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri Kaliforníu hefur heitið því að hafa hendur í hári þeirra sem grunaðir eru um að hafa verið valdir að skógareldum þeim sem geysað hafa í ríkinu undanfarna daga. A.m.k. tveir af eldunum hófust með íkveikju og grunur leikur á íkveikju í tveimur tilvikum í viðbót.

„Við munum elta það fólk uppi sem ber ábyrgð á þessu," segir Arnold. „Ef ég væri einn af þeim sem kveiktu eldana myndi ég ekki sofa rólegur því við erum rétt á eftir ykkur." Jafnframt hvetur ríkisstjórinn til þess að þeir sem stóðu að baki eldunum gefi sig fram.

Yfirvöldum í Kaliforníu hafa borist um 1.700 ábendingar um hvítann Ford F-150 pallbíl sem gæti verið tengdur eldinum sem kviknaði í Santiago í Orange-sýslu. Þar brunnu 27.000 ekrur og 14 hús eyðilögðust. Heitið er 250.000 dollara eða 15 milljónum kr. verðlaunum fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku.

Arnold hefur samhliða þessu lofað að auka mjög aðstoð til þeirra sem eiga um sárt að binda eftir eldsvoðanna og hafa misst heimili sín og eigur. Fjárhagsaðstoð upp að allt að 10.000 dollurum eða um 600.000 kr. Eru í boði fyrir hvern einstakling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×