Erlent

Átök í norðvesturhluta Pakistans

Þórir Guðmundsson skrifar

Spenna magnast nú í norðvesturhéruðum Pakistans. Þar hafa talibanar verið að hreiðra um sig og láta stöðugt meira til sín taka.

Ráðhúsið í Swat í norðvesturhluta Pakistans er nú ónýtt eftir árás talibana. Bæjarbúar segja að þeir hafi ráðist á bæinn með þungavopnum, skipað íbúum að koma út úr húsum sínum og síðan lagt eld að heimilum þeirra.

Norðvesturhéruð Pakistans hafa löngum verið einskismannsland, svæði sem lög og reglur ná ekki til og þar sem ættflokkaveldið er óskorað. En eftir að hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum hófst með innrásinni í Afganistan og talibönum var úthýst frá Kabúl hefur tvennt verið að gerast á þessum slóðum.

Talibanar hafa hreiðrað um sig Pakistanmegin landamæranna og pakistönsk yfirvöld, undir miklum þrýstingi frá Bandaríkjunum, hafa að ráðist gegn talibönum og stuðningsmönnum þeirra, nokkuð sem hefði verið óhugsandi íhlutun í málefni ættflokkanna þarna fyrir nokkrum árum.

Nýlega tók ofsatrúarklerkur þrettán menn í gíslingu og sakaði þá um að vera útsendara stjórnarhersins. Eftir árás hersins á klerkinn voru gíslarnir drepnir.

Tilgangur talibana með árásinni á Swat virðist hafa verið að fella bæjarstjórann, en hann var í Islamabad og komst því af. Þetta var einu sinni frægur ferðamannabær en þeir tímar eru löngu liðnir og ekkert sem bendir til annars en að stigvaxandi ofbeldi verði hlutskipti íbúanna á næstu misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×