Erlent

Presturinn, ástkona hans og fasteignasalinn

Ítalir ræða fátt annað þessa dagana en fréttir frá þorpinu Monterosso þar sem presti staðarins hefur verið vikið úr starfi fyrir að eiga ástkonu í þorpinu. Sjálfur segir presturinn, Don Sante Sguotti, að fasteignasali sem falast hefur eftir landi í eigu kirkjunnar hafi komið af stað orðrómi um að hann ætti barn með ástkonu sinni.

Hinn 41 árs gamli Don Sante hefur mátt horfa upp á alla fjölmiðla Ítalíu greina nákvæmlega frá sambandi sínu við Lauru, einstæða konu í þorpinu sem hann hefur þjónað síðustu átta árin. Raunar neitar Don Sante því ekki að eiga í ástarsambandi við Lauru en hann segir sambandið andlegt og ekki holdlegt og því ekki í andstöðu við kennisetningar kaþólsku kirkjunnar.

Og síðan kemur til sögunnar fasteignasalinn hr. Villani. Hann hefur lengi haft augastað á landi sem er í eigu kirkju þeirrar sem Don Sante hefur þjónað. Don Sante hefur hinsvegar þvertekið fyrir að selja honum landið og ásakar nú hr. Villani um rógburð af verstu gerð til þess eins að koma sér úr embætti.

Don Sante er mjög vinsæll meðal þorpsbúa og hefur ungt fólk þar á bæ tekið til við að klæðast stuttermabolum með áletruninni: Don Sante er faðir minn."

Þetta hefur valdið kirkjuyfirvöldum á Ítalíu miklu hugarangri því töluvert hefur verið um kynlífshneyksli þetta árið meðal presta landsins. Því var ákveðið að víkja Don Sante úr embætti. Hinsvegar tókst honum að skilyrða brottför sína þannig að hr. Villiani yrði ekki selt land það sem hann ásælist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×