Erlent

Bhutto fagnað við komu í heimaþorp sitt

Þórir Guðmundsson skrifar

Benazir Bhutto fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans heimsótti heimaþorp sitt í dag, í fyrsta sinn eftir komuna til Pakistans. Um fjögur þúsund stuðningsmenn hennar tóku á móti henni.

Hún fór meðal annars að gröf föður síns, Zulfíkars Ali Bhutto, og dreifði rósablöðum yfir hana. Faðir hennar var fyrsti kjörni forsætisráðherra Pakistans, en herforingjastjórn steypti honum af stóli árið 1977 og lét síðar taka hann af lífi.

Benazir Bhutto hefur tvisvar orðið forsætisráðherra og vonast til að endurheimta völdin í kosningum í janúar. Bhutto hefur að mestu haldið sig á heimili sínu í Karachi síðan hún kom heim fyrir níu dögum.

Alls létust 143 stuðningsmenn hennar þegar reynt var að ráða hana af dögum strax eftir heimkomuna. Þetta er því fyrsta ferð hennar út fyrir Karachi.

Ferðin er táknræn, því Bhutto fjölskyldan kemur frá Larkana svæðinu í Sindh og þar er hennar pólitíska bakland. Lögregla í Pakistan sagði í gær að framfarir hefðu orðið í rannsókn hennar á tilræðinu við Bhutto, en vildu ekki segja nánar frá þeim.

Annars staðar í Pakistan var fólk áminnt um hversu ótryggt ástandið er í landinu. Her réðst til atlögu við harðlínuklerk sem hafði tekið fjóra pakistanska hermenn í gíslingu og látið taka þá af lífi fyrir framan mannfjölda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×