Erlent

Fagna refsiaðgerðum en vilja ekki árás á Íran

Þórir Guðmundsson skrifar

Hópur útlægra Írana fagnaði í dag auknum refsiaðgerðum sem Bandaríkjastjórn kynnti í gær gagnvart Íran. Á sama tíma ágerast stöðugt vangaveltur um að í Washington sé verið að ráðgera árás á Íran.

Íranskir stjórnarandstæðingar boðuðu til fundar í Brussel í dag til að fagna refsiaðgerðum sem Bush-stjórnin boðaði í gær. Aðgerðirnar beinast einkum gegn Quds sveitum írönsku byltingarvarðanna og fyrirtækjum sem þeim tengjast.

Þetta er í fyrsta sinn sem Bandaríkjastjórn beinir viðskiptabanni sérstaklega að her erlends ríkis. En hinir útlægu stjórnarandstæðingar vilja hins vegar ekki að gengið verði lengra.

Frá Washington berast þó stöðugt áþreifanlegri vísbendingar um að verið sé að skipuleggja árás á Íran og er oftast talað um umfangsmiklar loftárásir á stöðvar sem tengjast kjarnorkuáætlunum stjórnvalda í Teheran.

Cheney varaforseti er sagður hvetja mjög til árása á Íran - en hann hefur meðal annars sagt að Bandaríkin muni ekki leyfa Írönum að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Í síðustu viku tók Bush forseti undir þetta viðhorf og sagði að þeir sem vildu koma í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina ættu að reyna að koma í veg fyrir að Íranar öðluðust þekkingu til að búa til kjarnorkuvopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×