Erlent

Ályktun um þjóðarmorð út af borðinu

Þingmenn á bandaríska þinginu sem stóðu að ályktun sem hefði viðurkennt þjóðarmorð Tyrkja á Armenum, hættu við að krefjast þess að kosið yrði um málið í gær.

Ályktunin vakti gríðarlega hörð viðbrögð frá Tyrkjum sem eru bandamenn Bandaríkjanna og aðilar að NATO. Yfirvöld þar á bæ hafa viðurkennt að Armenar hafi verið drepnir í fyrri heimstyrjöldinni en þvertaka fyrir að um þjóðarmorð hafi verið að ræða.

Tyrkir hafa hótað að meina bandaríkamönnum að hafa afnot af herstöðvum í landinu sem eru afar mikilvægar í tengslum við stríðið í Írak. Hvíta húsið hafði einnig lagst eindregið gegn tillögunni en samskiptin við Tyrki nú um stundir eru sérstaklega snúinn vegna átaka þeirra við Kúrda í norðurhéruðum Íraks.

Ályktunin hafði þegar verið samþykkt í utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings en talið var ólíklegt að hún yrði samþykkt í fulltrúadeildinni, sérstaklega í ljósi afleiðinganna sem hún gæti haft á stríðið í Írak. Því var ákveðið að tillagan verði borin upp seinna, ef til vill síðar á árinu.

Talið er að ein og hálf milljón Armena hafi látið lífið í fyrri heimstyrjöldinni í Tyklandi sem þá laut stjórn Ottóman veldisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×