Erlent

Búrma mótmæli í 12 borgum

Fjöldasamkomur hafa verið skipulagðar í tólf stórborgum víðs vegar um heiminn í dag til þess að mótmæla herforingjastjórninni í Búrma.

Mótmælendurnir krefjast þess að leiðtogi stjórnarandstöðunnar Aung San Suu Kyi verði leyst úr haldi ásamt félögum sínum. Samkomurnar verða haldnar fyrir framan kínversku sendiráðin í borgunum tólf þar sem mótmælendurnir segja það á valdi Kínverja að fá herforingjana til að sleppa Nóbelsverðlaunahafanum Suu Kyi úr haldi en hún hefur verið í stofufangelsi í nákvæmlega 12 ár í dag.

Mótmælin auka enn á þrýstinginn sem settur hefur verið á stjórnvöld í Búrma en í gær lýstu Ástralar því yfir að þeir hefðu sett á viðskiptabann við landið sem bannar áströlskum fyrirtækjum að eiga nokkur viðskipti við herforingjana og fjölskyldur þeirra. Mótmælin verða haldin í borgum á borð við Sidney, París, London, New York og Höfðaborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×