Erlent

Burt með ríka og fræga fólkið!

East Portlemouth í Devon.
East Portlemouth í Devon. MYND/Internetið

Eldri borgari í smábæ í Devon á Englandi hefur hafnað rúmlega 200 milljónum til að bjarga þorpinu frá því að frægt og ríkt fólk taki það yfir. Isobel Waterhouse erfði fjögur smáhús í strandbænum East Portlemouth. Hún hefði getað selt þau fyrir rúmar sextíu milljónir hvert, sem annað heimili fræga fólksins.

Í staðinn hefur Isobel stofnað sjóð sem tryggir að húsin verði leigð út á spottprísum til heimamanna. Þeir hafa margir átt erfitt með að halda í fasteignir sínar, eða eignast fasteignir, vegna gífurlega hás húsnæðisverðs.

Isobel er fædd og uppalin í bænum sem telur einungis um 40 heimili. 30 þeirra eru í eigu fræga fólksins og standa auð mestan hluta ársins.

Útsýnið frá ströndinni yfir til bæjarins Salcombe er ekki slæmt.MYND/Internetið

Hún segist ekki vilja sjá þorpið sitt deyja út, en nú þegar hefur skóla og verslun þorpsins verið lokað þar sem of fáir íbúanna búa þar að staðaldri. Isobelsegist vilja leyfa fjölskyldufólki að ala börnin sín upp á þessum töfrandi stað.

Kate Bush og Damon Albarn eiga hús í bænum samkvæmt heimildum Sun. Þá eiga þáttastjórnendur BBC Jonathan og David Dimbleby einnig hús þar og Michael Parkinsons er reglulegur gestur í bænum.

Isobel segir að heimamenn hafi hreinlega ekki lengur efni á að kaupa sér hús í bænum. Þeir flytji annað og þorpið missi ungu fjölskyldurnar.

Foreldrar hennar keyptu húsin eftir fyrri heimsstyrjöldina. Hún segir fólk sem í auknum mæli kaupi önnur heimili eyðileggja lífstaktinn í þorpunum og þrýsti verðunum upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×