Erlent

A380 afhent

Þórir Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus afhenti Singapore Airlines í morgun fyrstu A380 risaflugvélina. Framleiðsla á vélinni hefur verið langt frá því átakalaus.

Ljósasýningin í Toulouse í Frakklandi í morgun var vel við hæfi þegar Airbus tókst loks að afhenda fyrstu risafarþegaflugvélina, Airbus A380, átján mánuðum eftir áætlaðan afhendingartíma.

Á þeim árum sem vélin hefur verið í smíðum hefur fjórum sinnum verið skipt um forstjóra Airbus og Boeing fór í fyrra framúr Airbus í pöntunum á nýjum flugvélum.

Með A380 veðjar Airbus á að farþegar vilji í framtíðinni fara í auknum mæli langar leiðir í stórri flugvél. Boeing er hins vegar að framleiða minni vél, Dreamliner, fyrir fólk sem vill komast styttri leiðir beint á áfangastað - fremur en þurfa að millilenda á stærri flugvöllum.

Í Airbus vél Singapore Airlines verður pláss fyrir tólf manns á lúxusfarrými, sextíu á viðskiptafarrými og 399 í almennu rými. Vélin er tveggja hæða og í henni verður krá og fríverslun. Fyrsta ferð A380 verður með Singapore Airlines eftir tíu daga, milli Singapore og Sydney í Ástralíu, og fargjöldin renna öll til góðgerðamála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×