Erlent

Hu vill leggja áherslu á umhverfisvernd

Þórir Guðmundsson skrifar

Kínverjar ætla á næstu fimm árum að leggja ofurkapp á umhverfisvernd, sem forseti landsins segir að sé nauðsynlegt til að kínverska þjóðin lifi af.

Þing kínverska kommúnistaflokksins er haldið á fimm ára fresti og ræðu flokksleiðtogans má líkja við stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar.

Hu Jintao flokksformaður sparaði ekki stóru orðin þegar kom að umhverfismálum. Það er lífsspursmál fyrir kínverska þjóð að vernda umhverfið og ganga ekki á orkuauðlindir líkt og hingað til, sagði hann. Hagvöxtur í Kína, sagði Hu, verður í of miklum mæli til á kostnað umhverfisins.

Ræðuna hélt hann í Pekíngborg, sem er oft umlukt mengunarskýi, og þar sem brúnkolarykið er kæfandi. Hu hefur verið að styrkja stöðu sína og búist er við að hann komi fleiri af sínum stuðningsmönnum fyrir í háum stöðum á þessu flokksþingi.

Hann hefur lagt áherslu á að efnahagslegur uppgangur undanfarinna ára nái líka til fátækra bænda í innsveitum Kína, ekki bara íbúa hafnarborganna. Hann hélt sig við þetta þema í morgun og bætti við mikilvægt væri á næstu árum að innleiða hátækni í æ meiri mæli.

Hingað til hafa kínversk fyrirtæki einbeitt sér að því að framleiða vörur sem síðan eru seldar fyrir vestræn fyrirtæki undir vestrænum vörumerkjum. Hu vill breyta þessu. Kínversk fyrirtæki ættu í framtíðinni að láta meira að sér kveða á alþjóðamarkaði og kínversk vörumerki að verða sýnilegri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×