Erlent

Ferðamenn drukknuðu í tælenskum helli

Þórir Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Sex evrópskir ferðamenn voru meðal átta manna sem létu lífið í Tælandi í dag þegar vatn flæddi skyndilega inn í helli sem þeir voru að skoða. Bresk kona komst lífs af.

Björgunarmenn fögnuðu innilega þegar félagar þeirra leiddu breska konu út úr hellinum í morgun. Hún mun hafa komist nógu hátt upp í hellinum, upp fyrir yfirborð vatnsins sem skyndilega flæddi inn.

Með henni í för voru fjórir Svisslendingar, breskur karlmaður, tíu ára þýskur drengur, tælenskur ræðari og tælenskur leiðsögumaður.

Undanfarið hefur rignt ákaflega í Khao Sok þjóðgarðinum og héraðsstjórinn segir að skilti við hellinn hafi varað fólk við að fara inn í hann í rigningu. Fólkið fór samt inn í hellinn, sem nær fimm hundruð metra inn í bergið og liggur við foss í þjóðgarðinum.

Nú er rigningatímabil í Tælandi og úrhelli sem safnast saman í jarðveginum getur fossað fram fyrirvaralítið með þeim afleiðingum að á verður skyndilega að stórfljóti. Fyrir evrópsku ferðamennina og tælenska aðstoðarmenn þeirra var engin undankomuleið - og kraftaverk má teljast að breska konan skuli hafa sloppið lifandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×