Erlent

Átök harðna í Kólumbíu

Átök fara nú harðnandi milli stjórnarhersins og skæruliða FARC hreyfingarinnar, sem hefur reynt að bylta stjórn Kólumbíu í fjóra áratugi. Í gær féllu sex skæruliðar og þrír hermenn særðust í átökum í héraði, sem annars er helst þekkt fyrir mikla kókaínframleiðslu.

Stjórnarandstæðingar segja að hægristjórn Alvaros Uribe ofsæki vinstrisinnaða andstæðinga sína, sem stjórnvöld saka á móti um að tengjast skæruliðum FARC.

Frá Kólumbíu berast líka fréttir af hrikalegu slysi í gullnámu suðvestur af höfuðborginni Bogota, þar sem að minnsta kosti 21 maður lét lífið. Tugir manna voru að störfum í námunni þegar aurskriða helltist yfir þá.

Slysið varð eftir að sögusagnir fóru að berast um að gull hefði fundist í námunni og fjöldi manns fór að grafa, fæstir með nokkra reynslu af gullgreftri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×