Erlent

Heimspekingurinn Sri Chinmoy látinn

Sri Chinmoy biður fyrir umburðarlyndi og opnum hug á milli trúarbragða í Barcelóna árið 2004. Chimnoy leiddi nefnd á vegum SÞ um málefnið.
Sri Chinmoy biður fyrir umburðarlyndi og opnum hug á milli trúarbragða í Barcelóna árið 2004. Chimnoy leiddi nefnd á vegum SÞ um málefnið. MYND/AFP

Indverski heimspekingurinn Sri Chinmoy sem tilnefndur var til friðarverðlauna Nóbels lést á heimili sínu í New York í gær. Hann varð andlegur leiðtogi þúsunda manna um heim allan fyrir trú sína á innri frið og samkennd milli landa. Chinmoy var tilnefndur til verðlaunanna fyrir þrotlaust starf fyrir Sameinuðu þjóðirnar í 30 ár.

Bandaríska dagblaðið New York Daily News greindi frá dauða hans í morgun. Sri Chinmoy kom til Bandaríkjanna frá Indlandi árið 1964. Hann starfaði hjá indverska sendiráðinu og byrjaði þá að halda fyrirlestra. Í dag senda samtök sem hann stofnaði mat og lyf til þurfandi víða um heim.

Chinmoy var einnig rithöfundur, skáld og tónlistarmaður og stofnaði Sri Chinmoy maraþonliðið sem stendur meðal annars fyrir sundkeppnum, hjólakeppnum og hlaupakeppnum um heim allan.

Þá var hann einnig þekktur fyrir hvers kyns aflraunir og lyfti hann meðal annars Steingrími Hermannssyni á Lækjartorgi með annarri hendi árið 1989. Þá tilnefndi 51 þingmaður frá Íslandi hann til friðarverðlauna Nóbels í ár, meðal annars fyrir að vinna að einingu í heiminum, en þau verðlaun féllu í skaut Al Gore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×